guðmundur.annáll.is

AnnállFræðslaGuðfræðiHelgihald og bænirLjóð og sálmarPistlarPrédikanir

« Neyðin hefur andlit · Heim ·

Prédikunarundirbúningur fyrir Hvítasunnudag

Guðmundur @ 10.42 23/5/07

Hér birti ég prédikunarpunkta fyrir Hvítasunnudag B-textaröð. Guðspjallið er tekið úr Jóhannesarguðspjalli 14.15-21. Textana má skoða hér.

Hvítasunnudagur

„Ekki með valdi né krafti, heldur fyrir anda minn! – segir Drottinn allsherjar.“

Kollekta

Guð, sem hefur uppfrætt hjörtu trúaðra með ljósi þíns heilaga anda: Veit oss í sama anda þinum að vita hið rétta og ávallt gleðjast af hans heilögu huggun. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textarnir samkvæmt annarri textaröð gefa tilefni til að fjalla um samband Heilags Anda við Föðurinn og Soninn. Eftirfarandi líking á því vel við um heilaga þrenningu, að Faðirinn er sólin, sem við sjáum ekki, Sonurinn er geislar sólarinnar sem birta okkur Guð, og Heilagur Andi er ylurinn sem lætur okkur finna fyrir nálægð Guðs. Sálmur vikunnar er dæmi um þessa íhugun: “Leiftra þú, sól, þér heilsar hvítasunna…” Sb. 724.[i] 

Sumir kjósa eflaust að útleggja texta Postulasögunnar á þessum degi og segja frá sögulegum bakgrunni Hvítasunnu kristinna manna. Hvítasunnu-kraftaverkið er tákn um að boðskapurinn er fyrir allar þjóðir, fagnaðarerindið á að boða til endimarka jarðarinnar. Það er kristniboð eða hlutverk kirkjunnar í heiminum, útsending hennar til að bera vitni (missio).  

Aðrir velja frekar sköpunarmátt Andans sem lýst er í Sálmi 104. Andinn er lífgjafinn, ljósið og vitið í tilverunni. Prólóg Jóhannesarguðspjalls er eins og brú milli sálmsins og guðspjallsins. Hvítasunna er um endursköpun mannkyns, heimsins og allrar tilverunnar.

En hvaða pól sem við tökum í hæðina að þessu sinni þá megum við til með að prédika gleðina eins og kollektan orðar það: “…ávallt gleðjast af hans heilögu huggun…”. Hvítasunna er himnesk gleðihátíð í kirkjunni! Hvatningin um árið að kirkjan sé samfélag í trú og gleði hefur orðið til þess að ég reyni að prédika glaðværð enda ástæða til fyrir fagnaðarboðana.

Lexían; Sl. 104. 24. 27-30

Hversu mörg eru verk þín, Drottinn,
þú gjörðir þau öll með speki,
jörðin er full af því, er þú hefir skapað.
Öll vona þau á þig,
að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
Þú gefur þeim, og þau tína,
þú lýkur upp hendi þinni, og þau mettast gæðum.
Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau,
þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau
og hverfa aftur til moldarinnar.
Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til,
og þú endurnýjar ásjónu jarðar. 

Þessi þakkar- og lofgjörðarsálmur leiðir huga minn að kristinni íhugun. Tvö stef vil ég nefna úr þeirri trúarhefð sem birtast í þessum versum sálmsins.

Fyrst er það andadrátturinn sem gefinn er af Guði, lífsandinn. Það er ákveðin hætti í því að gera trúarlífið allt of “andlegt” og ekki síst þegar Hvítasunna gengur í garð. Wilfrid Stinissen bendir á að hjartað er líkamlega og andlega séð mikilvægasta líffæri mannsins. Það er miðdepill manneskjunnar, sá snertipunktur þar sem hún er í sambandi við sjálfa uppsprettu lífsins. (Kristen djupmeditation, Bls. 116). Að anda að sér og frá sér er að lifa Guð sinn og lífgjöfina hans. Það að borða og drekka úr hendi hans er að lifa Guð.

Og svo er það hitt stefið að eiga allt undir Guði og skelfast að andinn verði tekinn frá manni. Það er að óttast Guð og verða vitur og yfirvinna þannig hræðsluna. Að taka við anda Guðs er lífið. Það er íhugun sálmaskáldsins.Ég hef mótað þessa hugsun fyrir mig eftir að hafa lifað í nálægð dauðans í sálminum: Ég er aðeins dropi sem drýpur á lauf… Myndlíkingin er fengin frá Gunnstein Draugedal. (Lesa og hlusta á heimasíðu).

Pistillinn: Post. 2. 1-4 (-11)

Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir. Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra. Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla. Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist, dreif að fjölda manns. Þeim brá mjög við, því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Þeir voru frá sér af undrun og sögðu: Eru þetta ekki allt Galíleumenn, sem hér eru að tala? Hvernig má það vera, að vér, hver og einn, heyrum þá tala vort eigið móðurmál? Vér erum Partar, Medar og Elamítar, vér erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene, og vér, sem hingað erum fluttir frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs.

Það er Lúkas sem segir frá Hvítasunnu-undrinu. Hann hefur verið nefndur “guðfræðingur Heilags Anda”. Þegar Lúkasarguðspjall og Postulasagan eru borin saman sést að í báðum ritunum er það andinn sem knýr áfram framvindu sögunnar (Lúk. 24:49 og Post. 1:8). Jesús er knúinn af andanum út í eyðimörkina og hann sendir lærisveina sína út í þjónustu með krafti andans. Hann kennir þeim að biðja um gjafir andans. Og hann lætur þá bíða eftir krafti frá hæðum. Mikill kristniboðsfræðingur, Robert Allen, orðar það svo:

Lúkas guðspallamaður vekur ekki athygli okkar á ytri röddum heldur á innri anda. Með sérstökum hætti einkennir þetta boð guðspjallið. Aðrir stjórna utan frá, Kristur stjórnar að innan – sumir skipa fyrir, Kristur blæs í brjóst … Með þessum hætti er kristniboðsskipunin í skrifum Lúkasar guðspjallamanns. Hann talar ekki um menn sem voru þannig gerðir að þeir hlýddu síðustu boðum meistarans sem þeir elskuðu heldur menn sem tóku við Andanum, voru knúðir áfram af þeim sama Anda til verka sem voru í samræmi við eðli þess Anda.
(Í lauslegri þýðingu GG)

Í texta Hvítasunndags sjáum við annað atriði sem einkennir Lúkas. Hann talar út frá bæði gyðinglegri og kristinni hefð. Kristnin fæddist af Ísrael. Það kemur fram í þessum texta. Táknið gefur það til kynna þegar borið er saman við spádómsbók Jóels að Andanum er úthellt yfir allt hold. Gyðingarnir voru saman komnir á Hvítasunnuhátíð frá öllum heimshornum – “öllum löndum undir himninum” – til þess að fagnaðarerindið næði út. Stefnan var tekin frá Jerúsalem til Samaríu og til ystu endimarka jarðarinnar. Saga Péturs í Postulasögunni ítrekar þessa áherslu m.a. í frásögninni um Kornelíus. (Post. 10:34).

Þriðja áhersluatriðið í frásögn Postulasögunnar er að lærisveinarnir eru “vitni að því sem gerst hefur” (Lúk. 24:48 – martyria). Það er fyrir kraft Andans að þeir mæla á Hvítasunnudag. Það voru óttaslegnir lærisveinar sem höfðu farið huldu höfðu sem stigu fram og báru vitni um krossfestingu og upprisu Krists. Ræður postulasögunnar er þessi vitnisburður í hnotskurn.

Þessi atriði nefnir David J. Bosch, kristnboðsfræðingur frá Suður-Afríku, í bók sinni Transforming Mission þegar hann gerir grein fyrir einkennum á trúboði Lúkasar. Auk þess nefnir hann: 4. Afturhvarf, fyrirgefning syndanna og frelsun. 5. Nýtt samband milli ríkra og fátækra. 6. Koma á friði. 7. Kirkjan samfélag þeirra sem fylgja Kristi. 8. Þjáning og erfiðleikar í þjónustunni. (David J. Bosch, Transforming Mission. Paradigm Shifts in Theology of Mission. S. 113-122)

Guðspjallið: Jóh. 14. 15-21

Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig.

Bent hefur verið að orð Jesú í guðspjalli Jóhannesar eru mjög svo ljóðræn. E. Brown sem ég sæki mest til setur upp textann eins og sést hér fyrir neðan. Þá tekur hann til umfjöllunar þrískiptingu sem Bultmann, Wikenhauser og Boismard hafa haldið fram að sé í þessum hluta guðspjallsins eða nánasta samhengi textans. Fyrsti hlutinn leggur áherslu á “trúið á mig” (Jóh. 14:1, 11). Annar hlutinn, sem við erum að fást við í guðspjalli dagins að hluta (v. 15-24), er með meginhugmyndina “elskið mig” og að sá sem elskar heldur boðorð hans. Það kemur fyrir þrisvar í þessum hluta (Jóh. 14:15, 21 og 23).

Guðleg nálægð er þema texans:

  1. V. 15-17 – huggarinn / hjálparinn sem kemur til að vera í lærisveinunum.
  2. V. 18-21 – Jesús sem kemur til að vera í lærisveinunum.
  3. V. 23-24 – Faðirinn með Syninum sem taka sér bústað í lærisveinunum.

Ef þér elskið mig,
munuð þér halda boðorð mín.
Ég mun biðja föðurinn,
og hann mun gefa yður annan hjálpara,
að hann sé hjá yður að eilífu,
anda sannleikans,
sem heimurinn getur ekki tekið á móti,
því hann sér hann ekki né þekkir.
Þér þekkið hann,
því hann er hjá yður og verður í yður.
Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa.
Ég kem til yðar.
Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar.
Þér munuð sjá mig,
því ég lifi og þér munuð lifa.
Á þeim degi munuð þér skilja,
að ég er í föður mínum
og þér í mér og ég í yður.
Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau,
hann er sá sem elskar mig.
En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum,
og ég mun elska hann
og birta honum sjálfan mig.
 

E. Brown telur þessa skiptingu ekki eins gegnumfærða í textanum og áðurnefndir ritskýrendur. Í 3 hluta (v. 21-24) er talað bæði um Föðurinn og Soninn. Þá er í v. 21-24 lærisveinarnir í þriðju persónu en þeir eru ávarpaðir í v. 15-20. Og spurningin í v. 22-23a þjónar betur sem tenging en sú skýring að spurningunni hafi verið skotið inn í textann. 
E. Brown bendir á þrennskonar nálægð Guðs:

En hvort sem við viðurkennum fullkomna þrískiptingu formsins eða ekki, þá kemur vissulega fram þrennskonar guðleg nálægð. Þrátt fyrir ætlaða þrjá ólíka uppruna er í þessum orðum nálægðin tvinnuð saman í eina heild sem byrjar og endar með þemanu að elska Jesú og að halda boðorð hans. Líklega, í endanlegri mynd Jóhannesarguðfræðinnar, var nálægðin talin koma fyrir og í huggaranum/hjálparanum. Huggarinn er nálægð Jesú þegar hann er fjarri, svo að orðin “ég kem til yðar” í v. 18 eru ekki álitin í andstöðu við hugsunina að huggarinn sé sendur. Og þar sem Faðirinn og Jesús eru eitt, þá er nærvera Föðurins og Jesús (v. 23) í rauninni ekki önnur en nærvera Jesú og Huggarans.(Lausleg þýðing GG. E. Brown, The Gospel according to John 13-21. bls. 643) 

Boðorðið að elska Guð er grundvöllur kristinnar siðfræði en það er ekki víða sem er talað um boðorðið að elska Jesú. Það er vanalegra að tala um að trúa á Jesú. Það hefur verið bent á í þessu sambandi að það sé hliðstæða Sínaí-sáttmálans og hins nýja-sáttála. Hliðstæðan er þessi að elska Guð einan í Sínaí-sáttmálanum og að elska Jesú einan sem opinberun Guðs á meðal manna sem hinn nýja-sáttmála. Borið hefur verið saman boðorðið hér og í 1. Jóhannesarbréfi (1. Jóh. 3:23-24 og sjá einnig 4:19-21). E. Brown bendir á að hér er umfjöllunin kristsmiðlæg meðan í bréfinu er hún guðmiðlæg. Engu að síður er að finna í bréfi Jóhannesar hugsanir um boðorð Jesú sem eru ekki þung vegna þess að Jesús elskaði að fyrra bragði, “Guð hefur sent son sinn”. Hjá Jóhannesi er gyðingleg afstaða til boðorða Guðs, það er yndi að hugleiði lögmál Guðs, eins og segir í fyrsta sálminum.

Í þessum texta er stórt guðfræðilegt hugtak – huggarinn/hjálparinn. Eins og í v. 16 tengist gjöf andans við bæn. Það er í bænagjörð að andinn starfar: “Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu” (v. 16 sjá Lúk. 9:9-13). Hér er talað um “annan” hjálpara og vísar það til að Jesús er sá fyrsti hjálpari sendur af Guði og að andinn kemur í fótspor Jesú til að fullna verk hans í og meðal manna. Helstu textarnir sem fjalla um hjálparann eru eftirfarandi fimm staðir í kveðjuræðu Jesú í Jóhannesarguðspjalli: Jóh. 14:15-17, 26; 15:26-27; 16:7-11, 12-14.

E. Brown bendir á hliðstæður í þessum texta sem er mjög upplýsandi:

Nauðsynleg skilyrði: elska Jesú; halda boðorð hans                  v. 15     v. 21
Gjöf hjálparans                                                                         v. 16     v. 18
Heimurinn mun ekki sjá hjálparann né Jesú                              v. 17     v. 19
Lærisveinarnir munu þekkja hjálparann og sjá Jesú                   v. 17     v. 19
Hjálparinn og Jesús munu vera í lærisveinunum                        v. 17     v. 20 

Og hann bendir á hliðstæðurnar í 1. Jóhannesarbréfi:
Nauðsynleg skilyrði: elska hvert annað, halda boðorð hans       3:23-24
Opinberun Guðs                                                                        3:2
Andstaða milli Föðurins og heimsins                                         2:15-17
Trúaðir mun sjá Hann eins og hann er                                       3:2
Guð býr í hinum trúuðu                                                             3:24 

Samantekt: Nærvera Guðs birtist okkur í Jesú og fyrir Heilagan Anda. Hver einstaklingur í kirkjunni er tekinn inn í kærleikssamfélag við Guð og samfélag trúaðra er kærleiki Guðs í heiminum. Kærleika Guðs er ekki hægt að binda við eða takmarkaður við eitthvert fólk eða hóp manna vegna þess að andanum er úthelt yfir allt hold.

Tillaga að nálgun: “Hér er leyndarmálið. Það er mjög einfalt: maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum.” (Litli prinsin eftir Anoine de Saint-Exupéry). Gleðilega Hvítasunnu!                                     


[i] Sálmur vikunnar: 724Leiftra þú, sól, þér heilsar hvítasunna,
heilaga lindin alls, sem birtu færir
hann, sem hvern geisla alheims á og nærir,
eilífur faðir ljóssins skín á þig,
andar nú sinni elsku yfir þig.
Ljóma þú, jörð, þér lýsir hvítasunna,
lífgjöf þín, Kristur, risinn upp frá dauðum,
opnar sinn himin heimi vonarsnauðum,
heilagur andi streymir yfir þig,
andar nú sinni elsku yfir þig.
Geisla þú, sál, mót sól þíns lífs og fagna,
sjá, það er vor á jörð, sem Drottinn gefur,
vittu það, barn, og vakna þú, sem sefur,
vitjar þín andi Guðs og skín um þig,
andar nú sinni elsku inn í þig.Lýstu mér, sólin hvíta, heita, bjarta,
heilagi andi Guðs og Krists, hans sonar,
uppspretta ljóss og friðar, lífsins vonar,
ljúk mér upp, kom þú, streym þú yfir mig,
anda nú þinni elsku inn í mig.
             Sigurbjörn Einarsson 

url: http://gudmundur.annall.is/2007-05-23/predikunarundirbuningur-fyrir-hvitasunnudag/


© guðmundur.annáll.is · Færslur · Ummæli