guðmundur.annáll.is

AnnállFræðslaGuðfræðiHelgihald og bænirLjóð og sálmarPistlarPrédikanir

« Kærleiksþjónusta í Eyjafjarðarprófastsdæmi 2007 · Heim · Föstuvaka – í Akureyrarkirkju 2007 »

Ræða 2. sd. í föstu – Hver er náungi minn?

Guðmundur @ 15.25 16/3/07

5l_umlazi_treeclinic_x.jpgRæðan var flutt á æskulýðsdegi við kvöldguðsþjónustu í Dalvíkurkirkju 4. mars 2007. Eftir messu var erindi flutt undir sömu yfirskrift. Fylgt var efni æskulýðsdagsins sem undirbúið var af starfsfólki biskupsstofu.  Ritningarlestrar voru þessir: Lexía: Orðskviðirnir 10:12, pistill: I. Jóh. 4:11-16 og guðspjall: – Mt. 25: 31 – 40.

Hver er náungi minn? 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Fólk sem verður á vegi okkar hefur sumt hvert djúp áhrif á okkur. Þær þurfa svo sem ekki að vara lengi stundirnar sem við erum saman á veginum en eitthvað verður eftir sem aldrei gleymist.

Ég átti bekkjasystur sem hafði með breytni sinni og lífi djúp áhrif á mig. Hún var grænmetisæta sem talið er nokkuð heilsusamlegt nú til dags. En hún var það vegna þess að hún taldi að með því fengju fleiri mat að borða. Svo borðaði hún ekki meira en nauðsynlegt var. Það var eins og hún hefði djúpa samkennd með þeim sem hefðu ekki nægan mat. Ég átti erfitt með þessi djúpu rök að hún tók ekki meira til sín en nauðsynlegt var til þess að deila kjörum með þeim sem liðu skort.

Við vorum að undirbúa okkur að fara til starfa sem kristniboðar. Hún var afkomandi kristniboða sem hafði meðal annars starfað mikið í hjálparstarfi, einnig á neyðartímum. Eflaust segði einhver að hún þjáðist af einhverjum sálarflækjum út af erfiðri reynslu en það var alls ekki mín upplifun. Þetta var henni eðlilegt og á þennan hátt deildi hún kjörum með meðbræðrum sínum og systrum sem lifðu við fátækt eða örbyrgð.

1. Hverjum hjálpum við, af hverju?

 Þegar við hugsum um náunga okkar eins og Jesús hvetur okkur til að gera þá verðum við að skoða raunveruleikann en ekki aðeins hugsjónirnar. Ég verð að játa að mér finnst verulega óþægilegt að hugleiða þetta efni. Ástæðan er sú að það er svo ágengt. Það snertir dýpst tilgang okkar með lífinu.

Stundum eru við prestar beðnir um að segja eitthvað fallegt á samkomum og helgistundum. En afsakið mig, það er ekki alltaf hægt. Og þegar við tölum um náunga okkar þá er hann ekki einhver falleg hugsjón heldur mannsbarn í raunveruleikanum. Í þessari ómögulegu dæmisögu sem ég las fer Jesús fram á það við okkur að við hættum að blekkja okkur sjálf með fagurgala og fögrum hugsjónum. Hann vísar okkur til raunveruleikans eins og hann er. Við eigum að gera það sem rétt er.

Neyðin hefur andlit, við skulum horfast í augu við það, þá verður það kona sem biður, barn, sem brosir í gegnum tárin, örkumla maður, sem vonar að einhver styðji hann á veginum. Þú getur geymt myndina í hjarta þér, jafnvel sagt einhver fögur orð til uppörvunar, en það gagnast þeim ekki, fyrr en þú réttir þeim hönd, binst þeim fátæku, þeim minnstu bræðrum og systrum Drottins, börnum Guðs, til eilífðar með Guði eins og hann gerði. Þá notar Guð þig til hjálpar þeim sem verða á vegi þínum. Þegar þú viðurkennir að þú ert smælingi og þurfalingur með þeim sem biðja, gráta og skjögra á veginum. Þá finnur þú kærleikann í augum náunga þíns.

Í þessari dæmisögu kennir Jesús okkur að það er sjálfsagt að hjálpa. Þeir sem gengu á þeim vegi vissu svo sem ekkert af því að þeir voru að vinna Guði þægt verk. Það hefur verið sagt að Guð þurfi þess ekki með að við elskum hann þess vegna segir hann við okkur elska þú náunga þinn. Samtímis er Guð kærleikur. Hann er bandið milli þín og þess sem þú styður, styrkir og berð, rétt eins og hann er kærleikurinn sem ber þig þegar þú getur ekki gengið lengur, veitir þér kraft til að halda áfram og heldur í þína hönd. Kærleikurinn er næg ástæða til að elska náunga sinn eins og það hljómar nú gáfulega, vegna þess að kærleikurinn er vitið í tilverunni. Og enn tekst mér ekki að segja neitt gáfulegt.

2. Hver er okkar minnsti bróðir?

Það er engin sjálfsafneitun eða sjálfspíning að elska náunga sinn vegna þess að hann er Kristur. Þegar þú horfist í augu við aðra manneskju þá horfist þú í augu við Krists. Það er andlitið sem mætir þér. Það sem þú segir við aðra manneskju sem er þér samferða á veginum segir þú við Guð. Það sem þú gerir öðrum á veginum það gerir þú Guði.

Svo að þinn minnsti bróðir og systir eru ekki endilega þau sem eru í fjarlægð og búa við örbyrgð og neyð. Það er sá sem er með þér á veginum, maki þinn, börnin þín, vinir þínir, nágrannar þínir, samstarfsfólk þitt, allir þeir sem eru þér samferða á veginum. Og þegar þú ferð að hugsa þannig verður líka barnið í neyð í fjarlægu landi náung þinn.

Þess vegna er það að maður þarf að gæta að sér í nærveru sálar. Þetta kann að hljóma ógnvekjandi. Og það er ógurlegt að vita af Guði í öllum samskiptum sínum. En það er líka lækning og meðal til að læra það sem Jesús kennir í dæmisögunni. Guð er í samskiptum okkar.

3. Hvað býður Jesús okkur að gera?

Jesús beinir okkur í dæmisögunni til þeirra sem eru hungraðir og þyrstir. Hann bendir okkur á útlendingana og segir okkur að taka vel á móti þeim. Hann bendir okkur á þá sem eru alslausir og við eigum að útvega þeim föt. Og hann bendir okkur á þá sem eru sjúkir og segir okkur að vitja þeirra. Og hann bendir okkur á þá sem eru í fangelsi og segir okkur að heimsækja þá.

Nei, hann segir okkur ekki að gera allt þetta. Hann segir okkur einfaldlega að kærleikurinn knýr okkur til þessa. Þannig á það að vera. Eina leiðin til að þjóna Kristi er með því að elska eins og hann gerði. Og til þess kom hann, til þess að þjóna og gefa líf sitt.

Það sem við gerum. Hvað sem við gerum? Þá er það aðeins af þakklæti til hans sem elskaði að fyrra bragði.

Þetta er ekkert skynsamlegt tal hjá mér í kvöld heldur er það mál hjartans. Og hvað er skynsemin í samanburði við kærleikann? Ekkert. Kærleikurinn er fyrstur og fremstur. Jóhannes orðar það svo: Guð er kærleikur.

Skilur þú mig? Dæmisagan beinir okkur að uppsprettu kærleikans, lindarauganu, þar sem lífsvatnið vellur fram. Við þurfum ekki annað en að teyga af því. Vegna þess að það er okkur gefið.

Og svo er það með þeim hætti að ef þú gefur af kærleika þá vex aðeins kærleikurinn. Hann verður að því bandi sem bindur þig við lífið.

4. Hversu mikið eigum við að hjálpa? Hversu mikið að gefa?

Það liggur þá í augum upp að við eigum að verða einhverjar Florence Nightengale (1820-1910) eða Henry Dunant, hvatamðaur að stofnun rauðakrossins, sem fórnuðu sér algjörlega fyrir málstað mannúðar og líknar. Er það ekki?

Jú, það er hin rétta afstaða. En eins og bekkjasystir mín sem ég nefndi í upphafi þurfum við að finna okkur þá leið sem Guð vill að við  beinum kröftum okkur að.

Þegar konan mín fær alla gíróseðlana frá líknarfélögunum fyrir jólin fer dálítið um mig. Verður nokkuð eftir handa okkur, hugsa ég. Hún er fjármálastjóri heimilisins. Kærleiksþjónustunni þarf að finna sinn rétta farveg. Við höfum valið að taka fósturbarn erlendis og styðjum dreng í Afríku. Um daginn fengum við mynd senda af honum. Það er andlit sem við horfumst í augu við.

Það hjálpar manni svo að vera samferðamaður á veginum tilbúinn að gefa af sér og hjálpa þegar á þarf að halda.

Guð gefi okkur náð til að líkjast honum meira og meira eins og Jóhannes postuli sagði, postuli kærleikans: “Þér elskaðir, nú erum vér Guðs börn, og það er enn þá ekki orðið bert, hvað vér munum verða. Vér vitum að þegar (Drottinn) birtist, þá munum vér verða honum lík(ir), því að vér munum sjá hann eins og hann er.” 1. Jóh. 3.2

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleikur Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.

url: http://gudmundur.annall.is/2007-03-16/raeda-2-sd-i-fostu-hver-er-naungi-minn/


© guðmundur.annáll.is · Færslur · Ummæli