guðmundur.annáll.is

AnnállFræðslaGuðfræðiHelgihald og bænirLjóð og sálmarPistlarPrédikanir

« Ræða 1. sd. í föstu – Öfugsnúið og róttækt · Heim · Ræða 2. sd. í föstu – Hver er náungi minn? »

Kærleiksþjónusta í Eyjafjarðarprófastsdæmi 2007

Guðmundur @ 14.37 16/3/07

malthing2007500.jpgErindi flutt á málþingi um kærleiksþjónustu í safnaðarheimili Akureyrarkirkju haldið á vegum biskupsstofu, kærleiksþjónustusvið, og Eyjafjarðarprófstsdæmis, föstudaginn 2. febrúar 2007. Nánari umfjöllun og önnur erindi eru á vef Eyjafjarðarprófastsdæmis (Skoða nánar).

Kærleiksþjónusta í Eyjafjarðarprófastsdæmi 2007 

Í skjalasafni kristniboðsambandsins hér á landi er að finna skrif Gudina Tumsa, framkvæmdastjóra kirkjufélagsins lúterska í Eþíópíu. Kirkjan hans heitir Mekane Yesu, hús Jesú. Í annríki daganna mótaði hann hugmyndir um hvernig kirkjan ætti að takast á við það að starfa í samfélagi kommúnismans eftir byltinguna 1974.[1] Það er náttúrulega miklu merkilegri texti en sá sem ég er að leggja fram hér í dag og auk þess sem höfundurinn gegndi mun meiri ábyrgð en ég í kirkjunni. Hitt eigum við sameiginlegt að þurfa að vinna verk okkar á skömmum tíma. Og að viðfangsefnin varðar stöðu kirknanna í samfélaginu. Það gerir umfjöllunin um kærleiksþjónustu svo sannarlega.

Vandinn sem ég stóð frammi fyrir var þessi: Hvernig er hægt að mæla eða gera sér grein fyrir kærleiksþjónustu kirkjunnar og umfangi hennar í Eyjafjarðarprófastsdæmi?

Það liggja ekki fyrir mikil gögn um þann þátt og því síður rannsóknir á því sem við köllum kærleiksþjónustu eða diakonia. Slík samantekt eins sér myndi ekki gefa okkur þær upplýsingar sem skipta mestu þegar er verið að móta stefnu. Svo ég tók það til bragðs eins og margir félagar mínir gerðu við guðfræðideildina við Uppsala háskóla að taka viðtöl og ég einbeitti mér að vígðum þjónum á svæðinu.

Spurningarnar snéru að því að skilgreina kærleiksþjónustuna: (1) Hvað er kærleiksþjónusta að mati vígðra þjóna kirkjunnar? (2) Þá að meta þætti kærleiksþjónustunnar í viðkomandi embættum eða störfum, og (3) í viðkomandi söfnuði eða starfsvettvangi, og (4) að lokum að benda á möguleika til að bæta þjónustuna.

Hvað er kærsleiksþjónusta kirkjunnar?

Allir vígðir þjónar, þ.e. prestar og djáknar, á svæðinu líta svo á að kærleiksþjónusta sé veigamikill þáttur í störfum sínum. Flestir telja að ef sorgarvinna og sálgæsla er talin með kærleiksþjónustu þá er meirihluti starfs þeirra kærleiksþjónusta. Það reyndist flestum erfitt að flokka starfsþætti sem hreina kærleiksþjónustu og töldu hana fólgna m. a. í prédikun (huggunarorð) og helgihaldi (fyrirbæn) og barna og æskulýðsstarfi. Djákni og sjúkrahúsprestur á FSA töldu störf sín vera kærleiksþjónustu fyrst og fremst.

Þegar farið var yfir kaflann um kærleiksþjónustu í Stefnumótun þjóðkirkjunnar 2004-10 voru flestir sammála skilgreiningunni þar og markmiðssetningu:

“Markmið: Þjónusta kirkjunnar birtir kristna trú og kærleika í verki. Hún þjónar í anda Jesú Krists þeim sem þarfnast hjálpar. Kirkjan hlustar eftir þörfum og leitar þeirra sem helst þarfnast umhyggju og stuðnings. Kirkjan starfar með öðrum sem sinna hjálparstarfi og líknarþjónustu og tekur þátt í þverfaglegu samstarfi á sviði sálgæslu, áfallahjálpar og aðhlynningar sjúkra.”[2]

Þegar farið var yfir þau verkefni sem þar eru nefnd kom í ljós mismunur embættanna. Sumir sinntu einu meira en öðru en á heildina litið, þjónustu kirkjunnar í prófastsdæminu, er öllum verkefnunum sinnt, en mismikið. Prófastsdæmið býður upp á marggreinda þjónustu eða þjónustan lagar sig að harla ólíkum aðstæðum og hefur ótrúlegan sveigjanleika. Hér eru aðstæður harla ólíkar: (1) Sveit. (2) Sjávarpláss. (3) Þéttbýl. (4) Sérþjónusta (5) Eyjarnar. Væri ástæða til að skoða frekar mismun starfanna eftir aðstæðum.

Tvær athugasemdir vil ég þó nefna sem komu fram við Stefnumótunina. Sú fyrri var um vanda þess að tala um kærleikann vegna þess að hann er á sviði verkanna. “Kærleiksþjónusta er það sem einn prestur er sendur til að gera í söfnuði sínum að elska náunga sinn”, sagði hann. Hin athugasemdin var um eðli kærleiksþjónustu kirkjunnar. Sá vísaði í umræðu á málþingi síðast liðið haust um kærleiksþjónustu sem Djáknafélagið stóð fyrir. Í Stefnumótuninni er framsetningin allt of mikið viðskiptalegs eðlis, eitthvað sem á að selja, með yfirskriftinni: “Fjölþætt þjónustu – opin, virk og gefandi”. Þjónusta í þeirri merkingu felur í sér veitanda og þiggjanda. Dæmisagan um miskunnsama Samverjan felur allt annað í sér. Miskunnarverkið breytti þeim sem það vann. Grundvallaratriði varðandi kærleiksþjónustuna er gagnkvæmni, það á ekki að vera aumingjaþjónusta eða biðraðamenning þar sem menn verða að standa í biðröð til að þiggja ölmusu, heldur er kærleiksþjónusta kirkjunnar í ákveðnu samhengi, biðjandi, boðandi og þjónandi samfélags. Það er kjörorð þjóðkirkjunnar.

Ég vil bregða upp skýringarmynd um þessa grunnþætti þjóðkirkjunnar. Þar er merkið og kjörorðið sem endurómar af kirkjufræðum: Biðjandi, boðandi og þjónandi. Ég vil segja meistaralega valið. Kærleiksþjónusta er eitt af grunnhlutverkum kirkjunnar. Hún er alls ekki ný af nálinni. Í vígslubréfi presta, sem verður að flokkast undir lagaheimild í dag eða jafnvel stjórnarskrá þjóðkirkjunnar, er þetta hlutverk orðað. Það má segja að stofn þess sé frá stofnun evangelísk lútersku kirkjunnar á Íslandi en staðfest með kirkjuskipan siðbreytingarinnar. Vígslubréfið byggir á samkomulagi milli Guðs, prests og safnaðar. Við vígslu játast prestur köllun sinni, söfnuðurinn tekur við prestinum og á að styðja hann í þessu hlutverki sem felur í sér: (1) Að prédikun fagnaðarerindið. (2) Að hafa um hönd sakramentin. (3) Að hlýða skriftum. (4) Að sálusorga söfnuðinn. (5) Að styðja þá sem minna mega sín sem í dag væri einhvers konar réttindabarátt.

Mynd 1: Hlutverk kirkjunnar er ákvarðar með vígslubréfi presta og djákna. Vígslubréfið er samkomulag milli Guðs, vígðra þjóna og safnaða. Kirkjunni er falið hlutverkið sitt í veröldinni að biðja, boða og þjóna. Það er guðleg köllun hennar.

Kirkjan er ekki “Group” né heldur “Kærleiksþjónustan sf.”, heldur trúfélag. Skilvirkni og betra verklag gæti bætt t.d. kærleiksþjónustu kirkjunnar en grundvöllur hennar hefur dýpri rætur í menningunni. Það sem hefur gerst helst á þessu sviði í Eyjafjarðarprófastsdæmi er að djáknar hafa verið kallaðir og vígðir til starfa og sérþjónusta hefur eflst. Af samtölunum má ráða það að Stefnumótunin hefur ekki haft veruleg áhrif heldur fylgjum við félagslegri þróun kirkjunnar með því að stofnað var til djáknanáms og vígsla djákna tekinn upp að nýju. Hún hefur sömu félagslegu þýðinguna og prestsvígsla, ákvarðar hlutverk kirkjunnar. Því miður hefur orðið vart við stéttarleg átök eða skoðanamun um djáknaembættið og kom fram í sumum samtölunum. En að mínu viti höfum við stígið þetta skref að hafa þrjú embætti innan kirkjunnar, biskupa, presta og djákna, eins og Lima-skýrslan felur í sér. Og þá vil ég hnykkja á aðalatriðinu í þessari mynd og lúterskum kirkjuskilningi. Embætti kirkjunnar eru ekki fagstéttir heldur ákvarðar hlutverk safnaðanna/kirkjunnar í samfélaginu/veröldinni. Kirkja sem snýst um sjálfa sig stendur ekki undir nafni heldur á hún að vera biðjandi, boðandi og þjónandi í sínum aðstæðum. Í æsku var ég í tilraunaárgangi að læra mengi í stærðfræði og finnst mér að það geti skýrt nokkuð um þetta hlutverk. Ef við segjum að biskup á fyrst og fremst að biðja og leiða kirkjuna, prestur að prédika og djákni að þjóna eins og sýnt er hér, þá eru hlutverkin þrjú í öllum embættunum, en það sem skiptir mestu er að þetta eru hlutverk safnaðarins í veröldinni. Það sem er sameinandi í öllum embættum þjóðkirkjunnar er líka ákveðin texti, æðstaprestsbæn Jesú Krists í Jóhannesarguðspjalli 17. kafla. Sú bæn ákveður einnig hlutverk kirkjunnar í veröldinni. Það sjónarmið sem ég vil tala fyrir er að kirkjan þarf að orða hlutverk sitt eða þjónustu sína og sjá að það er framkvæmt best af fjölþættri þjónustu við þær samfélagsbreytingum sem eru að eiga sér stað á svæðinu.

Kenning kirkjunnar, í víðum skilningi bæði boðskapur og siðferði, er ekki fagþekking.[3] Við vígðir þjónar kirkjunnar erum ekki á sviðið vísinda og tækni, heldur samfélags og samfylgdar, kærleika, sem byggir á ákveðnu gildismati kristinnar trúar. Páll postuli orðar það svo: Markmið kenningarinnar er kærleikur.[4] Þannig er kirkjan samfélagsmyndandi. Sálusorgun og sorgarvinna felur t.d. í sér vinnu með grundavallargildi mannlegs lífs, merkingu þess og tilgang. Kristinn söfnuður er þetta samfélag sem á að mótast af anda Jesús Krists, birtir kristna trú í verki. Myndmálið sem Nt. notar um kristið samfélagi er af líkamanum ef einn limur finnur til þjást allir, það er sú félagslega samkennd sem á að einkenna kirkjuna. Og hún er ekki bundin við safnaðarmeðlimi eina heldur gildir um mannlegt samfélag í heild.[i]

Vígðir þjónar kirkjunnar og kærsleiksþjónusta

Það er erfitt að greina í sundur verk vígðra þjóna kirkjunnar og safnaðarins. Samtölin sýna mjög ólík starfsskilyrði en vígðir þjónar eru sér vel meðvitaðir um hlutverk sitt enda hafa þeir heitið að þjóna því hlutverki sem þeim hefur verið fengið opinberlega. Í næstu töflu er yfirlit yfir þau atriði sem nefnd eru í Stefnumótun þjóðkirkjunnar varðandi kærleiksþjónustu[5] Samtölin byggðu á Stefnumótuninni um kærleiksþjónustu. Setti ég J(á) við þar sem atriðin voru nefnd en autt þar sem því var lítið eða ekkert sinnt. Það er merkt við flesta þætti en í textanum hér á eftir er þeir metnir eftir samtölunum. Efla mætti þjónustuna með því að taka það til fyrirmyndar sem best er gert á einu stað og heimfæra það annars staðar.

Tafla 1: Já þýðir að verkefnunum er sinnt en ekki hversu mikið en meðfylgjandi greinargerð gefur nokkra hugmynd. Eyða þýðir það að viðmælendur töldu viðkomandi hóp eða verkefni lítið sem ekkert sinnt.

Kærleiksþjónustan hefur eflst með tilkomu sérþjónustu. Sjúkrahúsprestur og djákni á FSA (115% starf, launagreiðandi FSA) og prestur á dvalarheimilum aldraðra á Akureyrar (25% starf, launagreiðandi Akureyrarbær). Fangaprestur kemur til Akureyrar 6-8 sinnum á ári og fer til fanga og styður aðstandendur hér eins og annars staðar á landinu. Mér virðist önnur sérþjónusta kirkjunnar ekki ná hingað og er það umhugsunarefni. Sérþjónustan þarf að sinna landinu öllu þó að ég sjái ekki fyrir mér einfaldar lausnir á því en byrja mætti með stuðning og ráðgjöf við vígða þjóna á svæðinu.

Vígðir þjónar kirkjunnar sinna nokkuð einstæðingar. Kemur hér fram mikill munur eftir þessum gerðum prestakalla sem ég hef nefnt. Í sveitinni lifir enn ákveðið öryggisnet sem prestarnir skynja og eru partur af. Presturinn þekkir einstæðingana og lítur til með þeim í húsvitjunum frekar en til annarra. Þetta á reyndar einnig við í sjávarplássunum. Á Akureyri er fjöldinn orðinn það mikill að þessi tengsl eru mun minni. Nefnd um kærleiksþjónustu hefur á fundum sínum rætt og umsjónarmaður vinaheimsóknanna hefur bent á það að ekki hefur verið þörf fyrir vinaheimsóknir í sveitunum næst Akureyri, sömu sögu er að segja í sjávarplássunum. Það skýrir að vinaheimsóknir hafa ekki unnið sér sess í sveitunum og sjávarplássunum við Eyjafjörð. Eins og ég hef sagt þá liggur það í eðli kirkjunnar að styrkja þessa samkennd og samábyrgð. Það eru þó blikur á lofti þar sem sveitarsamfélagið er að breytast verulega, búinn að stækka, fólk að sækja “þjónustu” inn á Akureyri og vinnu.[6] Varðandi vinaheimsóknirnar hafa prestar hér í nágreninu verið að vinna að heimsóknarþjónustu innan Rauða krossins. Það er samstarf sem ég tel að þurfi að efla í anda stefnu kirkjunnar.

Eins og ég nefndi þá er helsta þróunin í kærleiksþjónustu í Eyjafjarðarprófastsdæmi á sviði sérþjónustu með tilkomu djákna á FSA fyrir um tólf árum síðan. Það hefur breytt sálgæslu á sjúkrahúsinu, aukið hana og bætt. Því ekki verður því jafnað saman að prestur komu einu sinni í viku á stofnun eins og FSA og að þar sé til staðar vígður þjónn sem er einn af starfsfólki sjúkrahússins. Það er þakkarvert að stjórn sjúkrahússins hefur metið trúarlega þjónustu svo mikils að auka starfshlutfallið og ráða á síðast liðnu ári sjúkrahúsprest. Það hefur reynst vel að tveir aðilar sinna þjónustunni. Samtölin benda til þess að huga má betur að tengslum við presta í nágrannabyggðum.

Sálgæsla á heimilum aldraðra. Prestar hafa komið á dvalarheimilum aldraðra og verið með helgistundir og rætt við heimilisfólkið. Gjarnan sungið og spilað. Heimsóknir presta á dvalarheimilin hefur þótt eðlilegur þáttur í starfi þeirra enda hefð fyrir nánum tengslum kirkjunnar og öldrunarstofnana í landinu. Á Dalbæ á Dalvík og Hornbrekku í Ólafsfirði koma prestar vikulega. Mánaðarlega eru guðsþjónustur. Á Akureyri var ráðið í hlutastarf, sem er nú 25% starf greitt af Akureyrarbæ, til að auka við prestsþjónustuna á dvalarheimilunum í bænum. Það eru einnig ein tólf ár síðan það hófst. Það hefur þýtt að prestur er meira til staðar eins og til var stofnað og fer á milli deilda á Hlíð og annarra dvalarheimila, annast helgihald og viðtöl. Það stóðu vonir til að þetta starfshlutfall myndi aukast með tímanum og tel ég ástæðu til að skoða það.

Vinaheimsóknir hafa verið á vegum prófastsdæmisins. Umsjónarmaður er nú í 60% starfi greitt af prófastsdæminu. Sjálfaboðaliðar heimsækja með henni eldra fólk í heimahús. Af samtölunum að dæma er litið á þessa þjónustu sem þátt af kærleiksþjónustu safnaðanna en vígðir þjónar safnaðanna vildu gjarnan að starfið tengdist betur safnaðarstarfinu t.d. með því að umsjónarmaður kæmi í guðsþjónustu og segði frá því og fengi fyrirbæn safnaðarins. Auk þess mætti hugsa sér að hún tengdist fyrirbænaþjónustu safnaðanna. Eins og ég hef bent á hefur þessi þjónusta ekki náð fótfestu fram í firði né út fjörðinn. Vaxtamöguleikarnir má sjá etv. í aukinni djáknaþjónustu á vegum safnaðanna á Akureyri þegar skuldir greiðast niður. Þarna er dæmi um sjálfboðaliðastarf sem er list að halda úti og þarf næmleika og umhyggju til að gangi. En sjálfboðaliðastarf er mikilvægur þáttur kirkjusamfélagsins.

Vígðir þjónar kirkjunnar telja stuðning við syrgjendur veigamikinn þátt í starfinu. Sorg og dauði virðist manni stundum talið sérsvið presta. Ástæðan er eflaust sú sterka útfararhefð sem hefur skapast hjá okkur. En einnig tengist dauðinn og áföll trú og tilvistarspurningum. En helsti stuðningur kirkjunnar í sorginni er nærveran að fylgja syrgjendum á veginum. Þegar dauðinn kveður dyra reynir á ábyrgð trúarsamfélagsins að enginn sé einn í sorg sinni. Það er mat flestra að þörf sé á aukinni eftirfylgd við syrgjendur.

Nokkuð hefur verið rætt um að koma á tengslum við fjölskyldþjónustu kirkjunnar á héraðsfundum prófastsdæmisins. Stefnt er að námskeiðum í því sambandi. Fjölskylduþjónusta kirkjunnar hefur annast handleiðslu fyrir presta og margir hafa nýtt sér hana. Ástæða er til að styrkja tengslin þegar hugað verður að verkefninu að styðja og auka sálgæslu við ungar fjölskyldur og barnafólk, og hjón og fólk í sambúð. Núverandi tengsl við þennan hóp er helst í tengslum við skírn og brúðkaup, en prestar telja mikilvægt að nýta þennan snertiflöt frekar.

Varðandi þolendur eineltis nær kirkjan í dag að sinna því eitthvað í minni sóknum þar sem er meiri nánd við skólana. En í þéttbýlinu á Akureyri hefur kirkjan takmarkaða möguleika að styðja þolendur eineltis nema þeir leiti eftir aðstoð í sálgæslu.

Varðandi misnotkun vímuefna hefur verið góð tengsl milli kirkjunnar og AA-samtakana. Kirkjan er skjólshús þeirra hér eins og annars staðar á landinu. Æðruleysismessur byrjuðu í Akureyrarkirkju að sænskri fyrirmynd en hafa einnig verið á Dalvík og Ólafsfirði. Það er umhugsunarefni að fólk sækist eftir helgihaldi þar sem lögð er áhersla á kærleiksþjónustu, fyrirbænir, samkennd og nánd.[7] Tólf-sporastarf á vegum kirkjunnar byggir á AA-hugmyndafræðinni og hefur verið í víðara samhengi og veitt mörgum lífsgrundvöll. Vímulaus æska er sjálfshjálparhópur aðstandenda unglinga í neyslu sem hefur notið stuðnings safnaðarprests í Akureyrarkirkju. Þá hefur starfsfólk kynnt sér möguleika í þessu sambandi erlendis eins og miðbæjarstarf.

Áfallahjálp er vandmeðfarið orð og skilningur presta á því er að það er ofnotað. Flestir vilji skilgreina það þrengra en almennt er gert og kjósa frekar að ræða um sálgæslu. Á flugslysaæfingu flugmálastjórnar vorið 2004 var kirkjan þáttakandi og prestar eru þar inni í áætlun, einnig er fulltrúi kirkjunnar í samstarfsteyma með fulltrúa Rauða krossins og áfallateymis FSA. Í næsta mánuði (mars 2007) verður unnin svæðisbundin viðbragðaáætlun kirkjunnar í framhaldi af nýrri Viðbragðaáætlun þjóðkirkjunnar.[8]

Söfnuðir og samfélag í kærsleiksþjónustu

Hvernig eru safnaðarstjórnir að sinna kærleiksþjónustu á svæðinu? Hvernig kemur kærleiksþjónusta kirkjunnar fram í samfélaginu?[9]

Hjálparstarf kirkjunnar hefur mörg undanfarin ár verið með útdeilingu í Glerárkirkju. Prestar hafa verið milliliðir hér í prófastsdæminu. Hjálparstarfið hefur samræmt umsóknir. Það gefur betri mynd af ástandinu enn eitt árið fjölgar afgreiðslum milli ára. Þá styrkja ýmsir söfnuðir hjálparstarfið með styrkjum árlega. Hjálparstarfið hefur haft fulltrúa hér á svæðinu sem hefur annast útdeilinguna og aðra þætti í starfinu. Leggja þyrfti áherslu á kynningarstarf í söfnuðunum og að auka þátttöku þeirra í hjálparstarfinu.

Þá vil ég nefna að söfnuðurinn í Glerárkirkju réð djákna til starfa í fullt starf og auk þess hefur Akureyrarkirkja ráðið safnaðarprest. Þessir starfsmenn sinna æskulýðsstarfi í söfnuðunum á Akureyri sem hefur verið lögð áhersla á í prófastsdæminu.

Kvöldkirkjan er þjónusta við ferðamenn, samstarfsverkefni kirkjuráðs, prófastsdæmisins og Akureyrarkirkju. Í kvöldkirkjunni er helgihald og sálgæsla stór þáttur og dæmi um nýtt frumkvæði hér á landi í kærleiksþjónustu.

Að lokum vil ég nefna safnanir og talandi dæmi höfum við á síðustu misserum eins og söfnun fyrir mæðrastyrksnefnd á aðventu og hjálparstarfsins, innanlandsaðstoð hér á Akureyri. Þetta framtak endurspeglar djúpstæðan arf í menningu okkar. Ég leyfi mér stundum að tala um hina mildu menningu, sem tendrar ljósið í vonleysi, það er í þessu samhengi sem orðið kærleiksþjónusta fær merkingu, dýpri og víðari.

Hvernir má efla kærsleiksþjónustu í Eyjafjarðarprófastsdæmi?

Auk þeirra atriði sem ég hef bent á í þessari yfirferð byggða á samtölunum vil ég bæta við:

  • Það væri gagnlegt ekki aðeins fyrir kirkjurnar heldur sveitarfélögin og hjálparstarf og líkarnafélög að Háskólinn á Akureyri gerði könnun á félagslegum aðstæðum á svæðinu. Niðurstöður slíkrar rannsóknar yrði grundvöllur ráðstefnu á breiðum grundvelli ekki aðeins til að ræða heldur til að efla samstarf á þessu sviði þar sem það getur leitt til betri árangurs.
  • Annars vegar þarf kirkjan að vera vakandi fyrir grundvallarhlutverkum sínum og gæta að félagslegri festi sem hún hefur í samfélaginu og hins vegar að endurskipuleggja þjónustu sína í samræmi við þær breytingar sem eru að verða á samfélaginu sem þessi skoðun hefur varpað nokkru ljósi á. Á það sérstaklega við á Akureyri.[10]

Lokaorð:

Vil ég ljúka erindi mínu með því að vitna í orð Valgerðar djákna í grein hennar sem birtist á kirkjan.is: “Kærleiksþjónustan er ekki bara valkostur heldur mikilvægur þáttur í lífi hvers kristins manns. Allt kristið fólk er kallað í skírninni til að lifa sem þjónar kærleikans með gjörðum sínum og lífsmáta í heiminum.”[11]
[1] Bakke, Johnny 1987. Christian Ministry. Patterns and Function within the Ethiopian Evangelical Church Mekane Yesus: 238-9.[2] Stefnamótun og starfsáherslur þjóðkirkjunnar 2004-11. Á heimsíðu þjóðkirkjunnar: www.kirkjan.is

[3] Kenning Lúters um trú og verk. Það er grundvallarforsenda kærleiksþjónustu og eitt það besta sem lútersku kirkjurnar geta lagt til umræðunnar um kærleiksþjónustu. Kærleiksþjónustu verður að setja í samband trúar og verka þ.e.a.s. að kirkjan trúir því og boðar það að hver einstaklingur sé elskaður af Guði, óverðskuldað er hann tekinn gildur af einskærri náð Guðs eins og hann eða hún væri einasti barn hans. Þegar einhver vill endurgjalda ást Guðs og þakka honum, þá bendir Guð okkur á náunga okkar og segir, ég þarf þess ekki með að þú elskir mig en elskaðu náunga þinn vegna þess að hann er bróðir þinn og systir sem ég elska eins og ég elska þig. (Sjá Sigurbjörn Einarsson. Coram Deo. 1981).

[4] 1. Tímóteusarbréf 1.1-6

[5] Stefnamótun og starfsáherslur þjóðkirkjunnar 2004-11: 9. Sjá einnig á heimsíðu þjóðkirkjunnar: www.kirkjan.is og á Pdf-formi http://kirkjan.is/skjol/stefna_og_starfsaherslur.pdf

[6] Það verður athyglisvert að fylgjast með könnun á félagslegri þátttöku fólks í sveit sem Búgarður er að vinna.

[7] Vímuvarnarfulltrúi Akureyrarbæjar kom upphaflega til sem samstarfsverkefni KA og Akureyrarkirkju. Er dæmi um frumkvöðlastarf á sviðið kærleiksþjónustu. Punkturinn sem var upphaflega miðstöð fyrir atvinnulausa er annað svæðisbundið dæmi um þetta. Þá hefur kirkjan á seinni árum bent á æskulýðsstarf sem forvarnarstarf. Það er eðlilegur þáttur í fermingarstarfi, trúfræðslu kirkjunnar. Það er áhugavert að skoða félagslega ábyrgð í minni samfélögunum og jákvæð áhrif þess að þétta samfélagið. Þar eru meiri tengsl við félagsmálayfirvöld en á Akureyri. Þyrfti eflaust að skoða og hafa samráð um verkefni á þessu sviði eins og einn viðmælandinn lagði til.

[8] Viðbragðaáætlun kirkjunnar. Sjá á heimsíðu þjóðkirkjunnar: www.kirkjan.is og http://www.kirkjan.is/?vidbrogd.

[9] Í þessu samhengi vil ég benda á niðurstöðu sem snertir eflaust við einhverjum. Kirkjunni er mjög áfátt í stjórnsýslu sinni. Þegar farið var í gegnum þetta skjal könnuðust menn við það en enginn kunni það svo að það hefði veruleg áhrif á starf viðkomandi. Það var frekar verið að skoða það og spegla starf sitt í því í samtölunum enda lagði ég upp með það. Þessi gagnrýni á þá ekki aðeins við kirkjustjórnina á lands vísu heldur einnig héraðið, prestaköllin og sóknirnar. Stefnumótunin sem sóknarnefndarfólk og almennir safnaðarmeðlimir tók sannarlega þátt í m. a. á fjölmennum fundi í Glerárkirkju er ekki fylgt eftir eins og ætla mætti. Og eflaust má gagnrýni ýmislegt í ferlinu. Í þessu má gera betur.

[10] Ein af forsendum þess að kærleiksþjónusta eflist er að skipulag kirkjunnar breytist og verkefni verði með samræmdu verklagi og til lengri tíma skipulögð, þ.e.a.s. að kirkjan viðurkenni að hún er að stofngerast og taki afleiðingum af því í erindisbréfum og verklýsingum.

[11] Á vefnum www.tru.is sjá nánar: http://tru.is/pistlar/2007/01/kaerleikstjonusta_kirkjunnar

url: http://gudmundur.annall.is/2007-03-16/82/


© guðmundur.annáll.is · Færslur · Ummæli