guðmundur.annáll.is

AnnállFræðslaGuðfræðiHelgihald og bænirLjóð og sálmarPistlarPrédikanir

« Píslarsagan í samtímanum · Heim · Kærleiksþjónusta í Eyjafjarðarprófastsdæmi 2007 »

Ræða 1. sd. í föstu – Öfugsnúið og róttækt

Guðmundur @ 12.58 23/2/07

Krossfesting - steindur gluggi � AkureyrarkirkjuRæða flutt 1. sd. í föstu við messu í Ólafsfirði 25. febrúar 2007. Prédikunartextar voru 1. Mós. 4.3-7, Jak. 1.12-16 og guðspjallið Lúk. 22.24-32. Textana má skoða hér. Meginhugmynd ræðunnar var að fara milli þessara orða öfugsnúið um reglu Guðs ríkis að Drottinn er þjónn allra og róttækt að lifa þann boðskap með því að sigra illt með góðu. 

Öfugsnúið og róttækt

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Það er eitthvað öfugsnúið við fagnaðarerindið sem kirkjan boðar. Marteinn Lúther, sem kirkjudeild okkar er kennd við, hefur oftsinnis verið gagnrýndur fyrir það að aðgreina reglu Guðs ríkis og reglur heimsins. En sú gagnrýni byggir á misskilningi. Hann aðgreindi ekki andlegt og veraldlegt, innra og ytra, heldur varaði við því að blanda saman og rugla þessu öllu saman. Hlutverk kirkjunnar er að boða fagnaðarerindið, lifa það og þjóna Guði. Það er lifandi og kröftugt. En það missir kraft sinn ef Guð týnist úr því. Eða réttara sagt við erum í vondum málum ef við ruglum saman okkar vilja og Guðs vilja, þá höfum við ekki fundið Guð í fagnaðarerindinu.

Einu sinni á ári þvær páfinn fætur þjóna sinni opinberlega til þess að undirstrika reglu Guðs ríkis. Það er að setja skipan mannlífsins á hvolf. Er það ekki? En þetta gerði Jesús. Hann þvoði fætur lærisveina sinna síðasta kvöldið sem hann var með þeim. Hugsið ykkur ef að Geir Haarde færi að þvo fætur hinna heimilislausu úr Byrginu. Það er hægt að gera ýmislegt í kirkjulegu samhengi sem augljóslega gengur ekki annars staðar.

Í guðspjalli dagsins setur Jesús allt á hvolf. Hann snýr við því sem við eigum að venjast með skipan heimsins. Lærisveinar hans voru að metast. Það er mjög algengt! En þá vísar Jesús til valdhafanna og hvernig því er gjarnan varið hjá þeim. Svo kennir hann lærisveinum sínum reglu Guðs ríkis:

“En eigi sé yður svo farið, heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri, sem situr til borðs, eða hinn, sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.”

1. Eftirfylgdin við Krist.

Þarna voru lærisveinarnar að metast – velta því fyrir sér hvaða stöðu þeir fengju í ríkinu. Yrðu þeir skrifstofublók á neðstu stigum hins mikla Guðs ríkis eða fengju þeir betri stöðu, með hærri laun og meiri völd yfir öðrum lærisveinum. Það er sagt frá þessu með góðlátlegri sjálfsgagnrýni. Sá sem var settur í frekar meiri leiðtogastöðu, Símon nefndur Pétur síðar postuli, hlýtur sjálfur hafa sagt sína sögu, eins og við höfum hana í guðspjalli Markúsar, annað hefði verið móðgun við leiðtoga kirkjunnar. Hann fylgdi Jesú alla leið inn í hallargarð æðsta prestsins nóttina sem hann var svikinn. Sjálfsgagnrýnin gengur út á það að lærisveinarnar og Pétur fremstur í flokki reiddu sig á eigin getu og eðli, langt út yfir skynsamleg mörk. En það að fylgja Kristi píslargönguna breytti afstöðu þeirra og lífsstefnu. Þeir höfðu fylgt Drottni drottnanna, konungi konunganna, sem kom til að þjóna og gefa lífs sitt fyrir marga. Eitthvað lærðu þeir á að fylgja honum. Pétur lærði að hann átti að þjóna á sama hátt og Drottinn og að lokum að gefa líf sitt fyrir fagnaðarerindið.

Og þannig er skipan kirkjunnar ennþá. Ég velti því fyrir mér hvort Jesú hafi í alvitund sinni séð það fyrir sem átti eftir að gerast og brosað dálítið með lærisveinunum þegar hann spurði og svarið lá í augum uppi: “Því hvort er sá meiri, sem situr til borðs, eða hinn, sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs?” Og hér sitjið þið söfnuðurinn minn góði og ég snarsnýst um þjónustuna við borðið, bukka mig og beygi, þjónusta ykkur eins og væri ég Kristur. Það er merkilegt fyrirkomulagið í Guðs ríki! Ég brosi ennþá að þessari snilld og vona að þið getið gert það líka. Í Guðs ríki skiptir vald engu máli. Það er fellt úr gildi. Guði einum ber dýrðin.

Í upphafi föstu sláumst við í för með Jesú, göngum með honum upp til Jerúsalem, þjáningarveginn, til þess að lifa okkur sjálf með honum, orðum hans og athöfnum, þessar stundir, þegar hann gekk til móts við allt sem illt er og hafði sigur. Hluti af illskunni er bundið valdi og stjórnun, fær sínar ferlegustu myndir oft í því sambandi.

2. Freisting til hins illa eða vegsama Guð

Það hlýtur að vera voðalega gott að geta sleppt hinni andlegu vídd lífsins. Þá þarf maður ekkert að takast á við freistingar, getur bara látið eftir sér, það sem manni dettur í hug. Og það er talið fullkomið frelsi virðist manni í menningu sem kemur í kjölfar kristinnar trúar. Það eina sem lifir af úr kristindóminum er frelsið. Ef svo fer sem horfir þá breytist mannlífið í samfélag djöfla.

Kristin trú boðar vilja Guðs. Sá vilji er nefndur hið góða, fagra og fullkomna. Oft heyrir maður þá skoðun að kristin trú fjötri og er jafnvel háskaleg vegna þess að hún bindur menn og heftir í úreltum gildum. Þar að baki liggur annað hvort það að menn hafa ekki uppgötvað vilja Guðs sem fagnaðarerindið um Jesú Krist birtir okkur eða að menn viljandi rangsnúa því sem þeir heyra vegna þess að þeir vilja ekki lúta neinum öðrum vilja en sínum eigin.

Talandi um freistingar – eins og við gerum sérstaklega á föstunni þegar við einsetjum okkur að íhuga vilja Guðs. Þær koma til út af því að við höfum tilhneigingu til að brjóta gegn vilja Guðs. Í þeirri neikvæðu merkingu notar Biblían orðið girnd. Og boðorðið segir tæpitungulaust: Þú skalt ekki girnast. Þú skalt ekki brjóta gegn Guðs vilja.

Guð er ekkert í mun að við förum að hans vilja vegna þess að það er hans vilji. Guð er enginn valdfíkill. Vilji Guðs er kærleikur. Hann vill leiða okkur á sínum vegi vegna þess að það er okkur til gæfu og blessunar, hið góða, fagra og fullkomna.

En það er lítil hjálp í boðorðinu einu. Það ýfir aðeins upp vanmátt okkar, rétt eins og þegar lærisveinarnir ætluðu að koma á Guðs ríki með eigin mætti og hyggjuviti. Það er fagnaðarerindið um Jesú Krist sem gefur okkur styrkinn til að takast á við freistingarnar. Hans var freistað á allan hátt en hafði sigur. Í trúnni erum við samferða honum, í bæna og íhugun, við lestur Guðs orðs og í samfélagi með þeim sem ganga á veginum, fáum við styrk frá Guði. Því Guð er ekkert dauðyfli sem búið er að krossa yfir fyrir fullt og allt. Hann er lifandi Drottinn, sem biður með okkur og fyrir okkur. Hann talar til okkar í orði sínu. Hann þjónar okkur og gefur sig að börnum sínum sem leita hans. Hann er nálægur í sakramentunum. Það er fagnaðarerindið að vegna Jesú eigum við samfélag við Guð. Auðvitað er það trú, en í trúnni eigum við þá líka allt með Kristi, Guð föður á himnum, sem elskar mig og þig, eins og sinn eigin son, Jesú. Það er fagnaðarerindið. Það er vilji Guðs að þú sért hans og hann þinn Guð, sem vill þér ekkert nema það sem gott er. Trúir þú því að Guð sé eins og Jesús Kristur sagði að hann væri? Þér er alveg óhætt að gera það því að orð hans eru sannleikur.

3. Guð ríki á öllum sviðum lífsins

Samkvæmt þessu eigum að lifa á öllum sviðum lífsins. Rétt eins og Guðs ríki væri á meðal okkar. Jesús byrjaði prédikun sína: Gjörið iðrun því að Guðs ríki er í nánd. Og iðrun er ekkert væl og vol yfir eigin getuleysi til þess sem gott er. Heldur er það að framganga í þeirri trú að Guð er góður, hann elskar alla menn, líka þá sem mér er illa við. Þá verð ég að umgangast þá með virðingu, jafnvel þjóna þeim, eins og Jesús gerði.

Inntak kristinnar siðfræði er að miklu leyti þessar bænir Faðir vorsins: Eigi leið þú oss í freistni heldur frelsa oss frá illu. Það kann að einhver heyri þverstæðuna í pistli dagsins að Guð freisti einskis manns og bænarinnar að hann leiði okkur ekki í freistni. Hugsunin í bæninni og möguleg þýðing er þessi: Leggðu ekki meira á okkur en við getum borið. Það er bæn um þá auðmýkt sem Jesús kenndi lærisveinum sínum sem væntir hjálpar frá Guði. Hin bænin að frelsa frá illu hljómar með því sem ætti að vera stefna allra kristinna manna að láta ekki hið illa ná tökum á sér heldur sigra illt með góðu.

Það er vandasamt jafnvægi milli þess að láta ekki vaða yfir sig og að halda í gæskuna fyrir alla muni. Lífið er vandasamt og siðfræðin snúin. Á því sviði hefur mannkyninu lítið farið fram í tvö þúsund ár, rétt eins og Sókrates og Kristur hefur aldrei verið til.

Má vera að grundvallarstaðreynd lífsins, skaparinn sjálfur og upphafið, hafi farið framhjá okkur, Guð sjálfur. Notum föstuna til íhugunar um hann, hið góða, fagra og fullkomna, og hvernig við getum lifa honum og þjónað náunga okkar, að nota þessa grunnreglu að sigra illt með góðu í lífi sínu, á heimili, í kirkju, samfélagi, landi og sköpuninni allri. Þó kunnuglega hljómi þá er þetta eflaust róttækasti boðskapur sem hugsast getur.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleikur Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen. 

url: http://gudmundur.annall.is/2007-02-23/raeda-1-sd-i-fostu-ofugsnuid-og-rottaekt/


© guðmundur.annáll.is · Færslur · Ummæli