guðmundur.annáll.is

AnnállFræðslaGuðfræðiHelgihald og bænirLjóð og sálmarPistlarPrédikanir

« Kærleiksþjónusta kirkjunnar – málþing 2. febrúar sl. · Heim · Ræða 1. sd. í föstu – Öfugsnúið og róttækt »

Píslarsagan í samtímanum

Guðmundur @ 11.50 23/2/07

Emmaus eftir CaravaggioaÞessi pistill birtist í safnaðarblaði Akureyrarkirkju. Það er kynning á Emmaus-námskeiðum sem haldin hafa verið undanfarin misseri. Stuðst hefur verið við námskeiðin og þau aðlöguð aðstæðum og tímanum. Að þessu sinni er píslarsagan skoðuð á föstutímanum í mars 2007. Vonast ég til að vinna með þetta efni hér á blogginu frekar.

 

 

Kynning

Á Emmaus námskeiðinu í mars sem er öll fimmtudagskvöld kl. 20 verður píslarsagan íhuguð en með sterkri tilvísun til samtímans. Það verður gengið út frá því að píslarsagan svari bæninni: Frelsa oss frá illu. Það verður tekist á við kristna siðfræði og þá reglu að láta ekki hið illa ná tökum á sér heldur að sigra illt með góðu. Þetta verður föstuganga með sjálfsskoðun en jafnframt tekið á því sem brennur á fólki í samtímanum.   Við höfum dæmi úr nútímanum hvernig hið illa hefur verið yfirunnið í starfi Nelson Mandela og Martin Luther King. Þeir prédikuðu hvorki kynþáttfordóma né komu á breytingum með því að hata hvíta menn, þeir prédikuðu og lifðu sáttargjörðina. Þannig talaði Nelson Mandela ekki um sigur þeldökkra yfir hvítum mönnum, heldur að Suður-Afríka yrði ‘regnbogaþjóð’ – saga og litrík hugmynd til þess gerð að yfirvinna kynþáttafordóma, beggja vegna. 

Þetta námskeið er sett upp til að hjálpa þátttakendum að nota þessa grunnreglu að sigra illt með góðu í lífi sínu, á heimili, í kirkju, samfélagi, landi og sköpuninni allri. Leiðbeindur verða sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson og sr. Guðmundur Guðmundsson. Frekari upplýsingar má lesa á vef Eyjafjarðarprófastsdæmis og Akureyrarkirkju www.akirkja.is  

Dagskrá Emmaus-námskeiðsins í mars
Samverurnar eru í kapellu Akureyrarkirkju á fimmtudagskvöldum kl. 20:

Fimmtudagurinn 1. mars

1. Píslarsögur í samtímanum – Stríð og ofbeldi
Texti: Matt. 26.47-56 – Jesús handtekinn
20. öldin geymir minningar um fanga- og útrýmingarbúðir, eyðingu heilla borga, blóðuga vígvelli, sem vekur til umhugsunar um mannlegt eðli. Í þessari fræðslustund er reynt að skilgreina sögu okkar út frá hugtök eins og illska og synd. Píslarsaga Jesú setur manninn í nýtt ljós. Brot gegn hverjum einstökum manni er brot gegn Guði. Hvað segir handtaka Jesú í píslarsögunni um stríð og fórnarlömb  stríðsátaka, um ofbeldi og nútíma þrælahald?

Fimmtudagurinn 8. mars

2. Samstaða Guðs með þeim sem eru órétti beittir
Texti: Matt. 26.59-65 – Jesús fyrir æðsta ráðinu
Allt getur orðið manni hjáguð, jafnvel það sem gott er í sjálfu sér. Píslarsagan geymir hugleiðingar um hvernig trúarsamfélag misbeitir því sem er heilagt til að réttlæta aftöku. Í þessari fræðslustund er litið á samfélagið og eigin lífsstíl með sjálfsgagnrýni. Og leitað leiða til að lifa með Guði og samferðafólki, í samstöðu með þeim sem eru órétti beittir.

Fimmtudagurinn 15. mars3.

Valdníðsla yfirvalda fyrr og nú – Vald og frelsi
Texti: Jóh. 18.28-38 – Jesús dæmdur af Pílatusi
Eitt af einkennum menningar okkar er að halda öllu í hæfilegri fjarlægð og gæta að eigin frelsi. En jafnframt erum við upptekin af því að ráða ferðinni. Ráða yfir umhverfinu, að hafa yfirhöndina í stjórnmálunum og stjórnast í fólki. En Jesús setti annað fordæmi. Hann talaði með valdi, en aldrei reyndi hann að ná valdi yfir fólki – hann kom til að “frelsa”, að gera fólk frjálst. Jesús hefur sýnt okkur líf sem snýst um vald kærleikans í stað þess að elska valdið. Markmið okkar varðandi aðra á að snúast um að gera aðra frjálsa, gefa þeim rými og losa um fjötra.  

Fimmtudagurinn 22. mars

4. Hver er ég gagnvart Guði í þjáningunni? – Samviska og iðrun
Texti: Lúk. 22.54-65 – Afneitun Péturs
Sú sjálfsskoðun sem farið hefur verið í gegnum á námskeiðinu með því að rannsaka píslarsöguna og samtímann leiðir okkur að þeirri hugsun að Guð vill með nálægð sinni og fyrirgefningu reisir menn við. Það hefur afleiðingar fyrir samskipti manna á milli. Þessi afstaða til Guðs leiðir til endurskoðunar á sjálfsmynd manna. Það er viðfangsefni þessarar fræðslustundar.

Fimmtudagurinn 29. mars

5. Krossinn sem sigurtákn yfir illsku í mannlegu samfélagi
Texti: Mark. 15.22-41 – Jesús er krossfestur og deyr
Síðasta fræðslustundin fæst við áhrif illskunnar á veröldina. Sama baráttan sem á sér stað milli hins sanna sjálfs og ranghverfa á einnig við í mannlegu samfélagi og umhverfi. Í þessari fræðslustund er skoðaður raunveruleiki hins illa í mannlegu samfélagi, en jafnfram sú von um nýja tíma og tákn um sigur á illskunni sem við sjáum í krossinum.

url: http://gudmundur.annall.is/2007-02-23/pislarsagan-i-samtimanum/


© guðmundur.annáll.is · Færslur · Ummæli