guðmundur.annáll.is

AnnállFræðslaGuðfræðiHelgihald og bænirLjóð og sálmarPistlarPrédikanir

« Prédikunarundirbúningur PÍ – 2. sd. e. þrenningarhátíð – Lúk. 19.1-10 · Heim · Píslarsagan í samtímanum »

Kærleiksþjónusta kirkjunnar – málþing 2. febrúar sl.

Guðmundur @ 11.23 23/2/07

Miskunsami Samverjinn - BibliumyndEftirfarandi pistill birtist í safnaðarblaði Akureyrarkirkju. Það er samantekt á því sem fram fór á málþingi 2. febrúar um kærleiksþjónustu kirkjunnar. Undirbjó ég málþingið með héraðsnefnd og nefnd um kærleiksþjónustu í Eyjafjarðarprófastsdæmi.

Kærleiksþjónusta kirkjunnar

Hvað er kærleiksþjónusta kirkjunnar? Og hvað vilja söfnuðir og starfsfólk í prófastsdæminu sjá í nánustu framtíð í þjónustu kirkjunnar?

Þetta voru spurningarnar sem ræddar voru á málþingi 2. febrúar sl. í Akureyrarkirkju. Nú stendur yfir ár kærleiksþjónustu í þjóðkirkjunni og er þessi þáttur skoðaður sérstaklega í starfinu samkvæmt stefnumótun kirkjunnar.

Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni, sem annast kærleiksþjónustusvið á biskupsstofu, skilgreindi þjónustuna í upphafserindi sem eitt af þremur meginhlutverkum kirkjunnar ásamt því að boða orð Guðs og dýrka Guð í helgihaldi.

Það var eitt af markmiðum málþingsins að orða þjónustu kirkjunnar og móta framtíðarsýn. Benti hún á að kærleiksþjónusta kirkjunnar hefði það að markmiði að sinna því sem hún kynni best, að veita andlegan stuðning. Tók hún vinaheimsóknir í prófastsdæminu sem dæmi og benti á frumkvöðlastarf í því sambandi. Hún taldi brýnt að fara ekki inn á svið sem t.d. félagsþjónusta sveitarfélaganna annaðist og að vera í samstarfi við önnur líknarfélög og stofnanir.

Frá félagsþjónustu Akureyrarbæjar komu Ásta Sigurðardóttir og Sigríður Ásta Hauksdóttir og greindu frá þjónustu bæjarins og hugleiddu þarfir samfélagsins. Sigríður Ásta taldi brýnt að styrkja innviði fjölskyldunnar. Ásta benti á að Akureyri væri tilraunasveitarfélag varðandi þjónustu við aldraða og fyrirmynd margra annarra. Hún gerði góða grein fyrir heilsueflandi heimsóknum sem reynst hafa vel og gagnsemi samstarfsaðila eins og kirkju og Rauðakrossins.

Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur, kynnti niðurstöður sínar, eftir viðtöl við vígða þjóna í Eyjafjarðarprófastsdæmi. Hann taldi ástæðu til að skoða raunverulegar aðstæður betur til að meta þarfir samfélagsins. Ennfremur að fylgja eftir þeirri þróun sem hófst fyrir rúmum áratug með tilkomu djákna og aukinni sérþjónustu á svæðinu.

Næsti þáttur var innlegg frá starfsmönnum kirkjunnar í hinum ýmsu starfsþáttum: Vinaheimsóknum, Trúarlegri þjónustu á FSA, Af starf vígðra þjóna – presta og djákna, Hjálparstarfi og Fjölskylduþjónustu kirkjunnar og Æskulýðsstarfi. Sr. Jón A. Baldvinsson, vígslubiskup, dró saman niðurstöðu að lokum og taldi kærleiksboð Drottins vera leiðarljós bæði leikra og lærðra í öflugu starfi kirkju og samfélags á þessu sviði.

Erindi og innlegg er að finna á vef Eyjafjarðarprófastsdæmis: www.kirkjan.is/eyjafjardarprofastsdaemi

url: http://gudmundur.annall.is/2007-02-23/kaerleiksthjonusta-kirkjunnar-malthing-2-februar-sl/


© guðmundur.annáll.is · Færslur · Ummæli